Bókhald – orðskýringar

Hér eru skýringar á algengustu orðum og orðatiltækjum sem notuð eru í bókhaldi.

Efnahagsreikiningurinn

 • Bókhaldsjafnan: Eignir = skuldir + eigið fé. Þetta er mikilvægasti þáttur í færslu tvíhliða bókhalds þar sem hver debet færsla á sér jafna kreditfærslu.

bókhaldsjafnan

 • Efnahagsreikningur: Þetta er fjárhagslegt yfirlit sem sýnir mynd af stöðu fyrirtækisins á hverjum tíma. Efnahagsreikningur er samansettur af eignum annars vegar og skuldum og eigin fé hins vegar og myndar samhengi þar á milli bókhaldsjöfnuna.
 • Eignir: Þetta eru allir sjóðir og hlutir sem fyrirtækið á til þess að halda rekstrinum gangandi. Eignir eru m.a. peningar, tæki og tól, húsgögn, bílar, byggingar og lóðir. Eignir mynda debet hluta bókhaldsjöfnunnar.
 • Skuldir: Þetta er vegna vöru og þjónustu sem fyrirtækið hefur keypt eða notað en á eftir að greiða fyrir m.a. reikningar, lán og skuldabréf.
 • Eigið fé: Þetta nær yfir allt fé sem hefur verið fjárfest í fyrirtækinu og fyrirtækið skuldar eigendum sínum. Eigið fé skiptist í tvo hluta. Annars vegar er það hlutafé sem stofnendur/eigendur hafa lagt fram eða hlutabréf ef um stærri fyrirtæki eru að ræða sem hafa gefið út hlutabréf.
 • Hins vegar er það sem er kallað „Óráðstafað eigið fé“ sem er afkoma fyrirtækisins frá ári til árs. Ef vel gengur þá getur heilbrigð staða á þessum reikningi gert fyrirtækinu kleift að greiða arð til eigenda eða hluthafa.
 • Skuldir og eigið fé mynda kredit hluta bókhaldsjöfnunnar.

Rekstrarreikningurinn

 • Rekstrarreikningur: Þetta er yfirlit yfir rekstur fyrirtækisins yfir ákveðinn tíma, eitt ár, ársfjórðung eða mánuð. Þetta yfirlit sýnir fyrst allar tekjur sem fyrirtækið hefur af hefðbundnum rekstri, síðan kemur yfirlit yfir öll gjöld sem tengjast rekstrinum og í lokin er niðustaða úr rekstrinum fyrir tímabilið þ.e. hagnaður eða tap. Í lok tímabils, venjulega í lok árs, er niðurstaðan af þessu yfirliti færð á reikninginn „óráðstafað eigið fé“.
 • Tekjur: Þetta er sala þjónustu eða vöru og er færð á rekstrarreikning í kredit. Tekjur geta einnig myndast af öðru en sölu vöru eða þjónustu t.d. ef seldar eru eignir sem mynda söluhagnað eða ef fyrirtækið lánar fé þá eru vextir af útlánuðu fé vaxtatekjur.
 • Kostnaður seldra vara: Hér er átt við þau fjárútlát sem verða við innkaup vöru eða þjónustu sem fyrirtækið síðan selur áfram til sinna viðskiptavina.

apple-cinnamon-tea-1-1238792

 • Gjöld: Þetta er allur kostnaður við rekstur fyrirtækis sem ekki tengist sölu á vöru og þjónustu beint, þ.e. kostnaður sem óháður því hvort fyrirtækið selur vöru eða ekki, t.d. launakostnaður, húsaleiga og símakostnaður.

Önnur algeng orð eða frasar

 • Aðalbók: Þetta er yfirlit yfir stöðu allra bókhaldslykla í notkun hjá fyrirtækinu. Eins og nafnið bendir til þá er þetta mikilvægasta yfirlit bókhaldskerfisins.
 • Afskriftir: Bókhaldsaðferð til að rekja notkun og rýrnun eigna eftir því sem árin líða. Sem dæmi má taka einkabílinn. Flestir sem eiga bíl vita að bíllinn rýrnar í verði eftir því sem hann eldist. Það sama á við um eignir fyrirtækja, tölvur, skrifborð og stólar rýrna í verði með notkun sem og byggingar og aðrir stórir hlutir.
 • Birgðir: Bókhaldslykill til að halda utan um allar vörur sem eru óseldar.
 • Bókhaldstímabil: Þetta er tímabilið sem notað er til að fyljgast með rekstrinum. Langflest fyrirtæki fylgjast með rekstrinum mánaðarlega og þá er bókhaldstímabilið einn mánuður. Önnur fyrirtæki kjósa bókhaldstímabil sem er ársfjórðungur eða jafnvel eitt ár. Þeir sem nota mánaðarlegt bókhaldstímabil taka oftast saman upplýsingar ársfjórðungslega og árlega.
 • Dagbækur: Þetta eru yfirlit yfir allar færslur sem eiga sér stað daglega í fyrirtækinu. Hægt er að hafa margar tegundir dagbóka, s.s. lánardrottnar, viðskiptamenn, fjárhagsfærslur o.s.frv.

excel_cash_book_download

 • Lánardrottnar: Bókhaldslykill sem heldur utan um alla reikninga og greiðslur til birgja, verktaka, ráðgjafa og annarra aðila sem selja fyrirtækinu vöru eða þjónustu.  Þessum bókhaldslykli er venjulega skipt í undirnúmer fyrir hvern aðila t.d. með kennitölu eða nafni viðkomandi.
 • Launakerfi: Þetta er aðferðin sem fyrirtækið notar til að halda utan um allt sem viðkemur launagreiðslum vegna starfsmanna. Þ.m.t. staðgreiðsla, lífeyrissjóðir, orlof og allt annað sem fyrirtækið þarf að standa skil á vegna vinnu starfsmanna.
 • Prófjöfnuður: Þetta er yfirlit sem er tekið út til að staðfesta að fjárhagsupplýsingar séu réttar í bókhaldskerfinu og að allar færslur stemmi.
 • Vextir: Peningar sem þarf að greiða banka eða lánastofnun fyrir að fá lán til viðbótar við lánið sjálft.
 • Viðskiptamenn: Bókhaldslykill sem heldur utan um alla sölu til þriðja aðila sem staðgreiðir ekki fyrir vöru eða þjónustu. Innborganir frá þessum aðilum eru fæðar hér líka. Þessum bókhaldslykli er venjulega skipt í undirnúmer fyrir hvern aðila t.d. með kennitölu eða nafni viðkomandi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *