Fjögur atriði til að auðvelda bókhaldið

Margir kannast við að fá kvíðakast þegar talað er um bókhaldið. Jafnvel þeir sem eru búnir að reka fyrirtæki í nokkur ár eiga oft erfitt með að halda fókus þegar kemur að fjármálum og bókhaldi. Það eru nokkur atriði sem allir geta tamið sér til að auðvelda sér lífið og ganga í augun á bókarnum sínum.

Fjögur atriði til að auðvelda bókhaldið:

1. Skrá upplýsingar daglega

Þetta er algjör grunnregla sem ekki er hægt að endurtaka of oft. Það getur orðið nær ómögulegt að rifja upp hvað maður var að gera þegar dagar, vikur eða jafnvel mánuðir líða frá því að atburðir átti sér stað. Best er að finna sína eigin leið til þess að skrá eða halda utan um upplýsingar. Það tekur bara nokkrar mínútur á dag að skrá hjá sér þegar þetta er komið upp í vana.

2. Reglulegar afstemmingar

Fara reglulega yfir færslur á bankareikningum og kreditkortum til að staðfesta að allar færslur séu réttar og að til séu kvittanir eða önnu gögn sem staðfesta tilurð færslna. Best er að gera þetta daglega eða nokkrum sinnum í viku eftir fjölda færslna. Nauðsynlegt er að koma sér upp fyrirtækjabanka og aðgangi að kreditkortum til að hægt sé að skoða færslur á netinu. Ekki er þörf á að bíða eftir yfirlitum því mjög auðvelt er að sjá allar færslur jafnóðum á netinu.

3. Gæta að rekjanleika færslna

Það skiptir miklu máli að auðvelt sé að rekja færslur í gegnum það bókhaldskerfi sem notað er. Það þýðir t.d. að bókhaldsgögn séu geymd í dagsetningaröð, reikningar sem gefnir eru út eru geymdir í númeraröð ef þeir eru ekki rafrænir og þess gætt að ekki vanti inn í númeraseríuna. Passa vel uppá allar kvittanir. Stofna sérstaka bankareikninga og opna sér kreditkort til að nota í rekstri og aðgreina frá persónulegum reikningum. Ef litið er til eins árs í senn þá á að vera hægt að rekja allar færslur innan ársins á auðveldan hátt. Þetta sparar tíma og vinnu ef t.d. skatturinn kíkir í heimsókn og vill skoða gögnin.

4. Nota tölvutækt bókhaldsforrit

Það er auðvitað hægt að halda bókhald upp á gamla mátann á pappír en eingöngu fyrir mjög lítil fyrirtæki eða rekstraraðila. Það er tiltölulega auðvelt að nálgast forrit á netinu sem eru ódýr eða jafnvel ókeypis og því á það ekki að vera nein hindrun til að halda bókhaldið með formlegum hætti í viðurkenndu kerfi. Flest þessi kerfi auðvelda verulega að taka út fjárhagsupplýsingar og ekki síst gera skattskil mun auðveldari. Nú er hægt að vinna bókhaldið á netinu og þarf ekki einu sinni að setja upp á eigin tölvu sem gerir það mun auðveldara ef bókhaldið er unnið af bókara utan fyrirtækisins.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *